Manntöl á Íslandi

Fyrsta nútímamanntal, þar sem allir íbúar heillar þjóðar voru skráðir með nafni, aldri, hjúskaparstétt, stöðu og heimili, var gert á Íslandi árið 1703.


Manntalið 2011

Manntalið 31. desember 2011 var fyrsta manntalið á Íslandi sem var tekið síðan 1981. Það var tekið að undirlagi nýrra reglna á Evrópska efnahagssvæðinu sem skuldbundu aðildarlönd til að taka manntal á 10 ára fresti, fyrst á árinu 2011.

Manntalið 2011 var sérstakt að því leyti að það var nær eingöngu byggt á gögnum í fórum stjórnvalda eða gagnagrunnum í vörslu Hagstofunnar. Hagstofan fékk ríkulegan fjárhagslegan stuðning frá Evrópusambandinu til þess að geta komið manntalinu í kring.

Skýrslur úr manntalinu voru birtar almenningi á árinu 2014 og 2015. Talnaefni var birt bæði á vef Hagstofu Íslands og í manntalsgátt Evrópusambandsins.

Eldri manntöl

Fyrsta nútímamanntal, þar sem allir íbúar heillar þjóðar voru skráðir með nafni, aldri, hjúskaparstétt, stöðu og heimili, var gert á Íslandi árið 1703. Það manntal er enn til og er varðveitt í Þjóðskjalasafni Íslands. Manntalið 1703 er nú komið á skrá UNESCO um minni heimsins eftir að stofnunin samþykkti umsókn Þjóðskjalasafnsins í júní 2013. Hagstofa Íslands gaf manntalið út í prentuðum heftum á árunum 1924-1947 sem síðar voru sameinuð í eina útgáfu. Einnig gaf Hagstofan út í samvinnu við Þjóðskjalasafn Íslands „Manntalið 1703 þrjú hundruð ára“ árið 2005. Hægt er að panta það á vef Hagstofunnar.

Á 18. öldinni voru tvö önnur en ófullkomin manntöl tekin. Næsta heildarmanntal var tekið 1801 en síðan 1835 og á fimm ára fresti til 1860. Frá 1860 var manntalið tekið í lok hvers áratugar fram til ársins 1960, fyrst af dönskum hagskýrsluyfirvöldum en 1910 af stjórnarráði Íslands og frá 1920 af Hagstofu Íslands. Öll þessi manntöl hafa varðveist og má nálgast upplýsingar úr eldri manntölum á manntalsvef Þjóðskjalasafnsins.

Árið 1953 var þjóðskránni komið á fót með sérstöku manntali og hún síðan vélvædd. Á síðari hluta 7. áratugarins þótti mönnum svo komið að vandræðalaust væri að sækja manntalsupplýsingar í stjórnsýsluskrár. Var því Hagstofunni gefinn kostur á slíku með sérákvæði í lögum um fyrirtækjaskrá árið 1969. Það reyndist tálsýn en ekki var aftur snúið. Ekkert manntal var tekið 1970.

Tíu árum seinna héldu menn enn í þá sýn að taka manntal upp úr stjórnsýsluskrám en sáu fram á að enn væri nokkuð í land. Var því efnt til manntals í ársbyrjun 1981 með sérlögum sem jafnframt felld úr gildi almennu lögin um manntöl. Þrátt fyrir mikla vinnu við manntalið 1981 á 9. og 10. áratug síðustu aldar hefur hins vegar ekki tekist að búa það þannig úr garði að það sé birtingarhæft.

Á síðustu tveimur áratugum síðustu aldar urðu mikil umskipti í hagskýrslugerð á Íslandi. Mikil framþróun var í þjóðskránni og upplýsingagjöf um heimilin og einstaklingana tók stakkaskiptum, einkum eftir að vinnumarkaðsrannsókn Hagstofunnar hóf göngu sína 1991. Jafnframt urðu miklar framfarir í öðrum upplýsingakerfum stjórnvalda, s.s. fasteignaskrá, skattskrám og atvinnuleysisskrá. Allt þetta hefur leitt til þess að manntöl eru ekki jafn brýn og áður til þess að lýsa þjóðinni en þó varð þróunin hvorki nægilega hröð né jöfn til þess að verjanlegt væri að byggja manntöl á skránum. Manntöl voru því ekki tekin árin 1990 og 2000.

Þegar Evrópusambandið leiddi í lög árið 2008 að öll lönd innan EES skyldu taka manntöl á 10 ára fresti frá og með árinu 2011 var hins vegar svo komið að mati Hagstofunnar að hægt væri að láta drauminn rætast um manntöl upp úr stjórnsýsluskrám. Fyrsta íslenska manntalið með þessum hætti var tekið miðað við 31. desember 2011 en niðurstöður þess birtar 2014 og 2015.