Algengar spurningar

Manntalið 2021 er óvenjulegt þar sem ekki er gengið í hús. Það er því von að ýmsar spurningar vakni.


Mikið er til af rafrænum upplýsingum um landsmenn. Þessar upplýsingar eru hins vegar gloppóttar og á víð og dreif. Til dæmis er lítið vitað um heimili landsmanna, fjölskyldur flosna upp í þjóðskrá þegar börnin verða 18 ára og þótt ýmislegt sé þekkt um húsnæði landsmanna þá er lítið vitað um húsnæðisaðstæður íbúanna.

Manntalið skoðar alla sem búa á landinu og metur þá líka sem vinna erlendis jafnframt því að búa á Íslandi. Manntalið skiptir þjóðinni upp í heimili, tekur þá frá sem búa á stofnanaheimilum og setur saman fjölskyldur óháð aldri barna. Hægt er að sjá við hvaða húsnæðisaðstæður heimilin búa, hvaða tekjur þau hafa og hvað heimilisfólkið hefst við. Að auki má skoða menntun landsmanna en skráning á menntunarstöðu var eitt af því sem best tókst til í manntalinu 2011 og Hagstofan býr enn að. Allar þessar upplýsingar er svo hægt að skoða sameiginlega og þannig fá mun ríkulegri mynd af samfélaginu en annars er mögulegt.

Með því að taka manntal og byggja á þeim rafrænu upplýsingum sem til eru má samræma gögnin og búa til heildstæðan þverskurð af þjóðinni.

Með manntalinu verður hægt að bera Ísland saman við aðrar þjóðir sem framkvæma sams konar manntal.

Manntalið 2021 er ólíkt manntölum fyrri alda að því leyti að ekki er lengur farið á heimili landsins og upplýsingar um þau og húsnæði þeirra skráð. Manntalið er byggt að öllu leyti á stjórnsýsluskrám, skrám í vörslu Hagstofunnar og sérstökum gagnasöfnunum stofnunarinnar veturinn 2020 til 2021. Sams konar manntal var tekið 31. desember 2011.

Allar þessar upplýsingar eru keyrðar saman til þess að ná fram heildstæðu manntali þar sem upplýsingar um búsetu, heimili, húsnæði, menntun og atvinnu mynda eina heild. Í hjarta manntalsins liggur samkeyrsla á íbúaskrá og fasteignaskrá Þjóðskrár þar sem markmiðið var að tengja sérhvern einstakling við tiltekna íbúð og fá þannig mynd af heimilum landsins í gegnum þá sem deila íbúðarhúsnæði. Þar hefur Þjóðskrá Íslands unnið mikið og þarft verk frá ársbyrjun 2020 við að skrá heimili landsmanna í íbúð fremur en eingöngu í tilteknu húsi við tiltekna götu.

Auk þess að tengja saman skrárnar er mikil vinna lögð í að hreinsa gögnin, leiðrétta misfellur og bæta í þar sem upp á vantar. Þá er mikil vinna fólgin í því að flokka gögnin þannig að þau falli að alþjóðlegum og innlendum stöðlum. Þar ber hæst gögn um menntun, atvinnugreinar og starfsstéttir.

Í einhverjum tilvikum eru ekki til fullnægjandi gögn um viðkomandi efnisþátt. Þá þarf að tilreikna sennileg gildi til að skila engu að síður réttmætum heildarniðurstöðum. Það er þó ekki alltaf gert. Tilreiknun er einkum sleppt ef gloppurnar eru smávægilegar og hafa ekki áhrif á aðra efnisþætti.

Manntöl hafa verið tekin á Íslandi frá árinu 1703 en þá var fyrsta heildarmanntal yfir eina þjóð tekið í heiminum. Upplýsingar sem fást úr manntalinu ganga ekki nærri einstaklingunum, þannig er ekki grafist fyrir um viðkvæmar persónuupplýsingar. Upplýsingarnar eru nær allar af því tagi að þær eru meira eða minna opinberar, t.d. um kyn, aldur, hjúskaparstétt, búsetu, menntun, atvinnu og húsnæði.

Þegar þær upplýsingar sem skylt er að afla samkvæmt EES-samningnum eru bornar saman við lög um persónuvernd kemur í ljós að aðeins gögn um það hverjir sitja í fangelsum landsins á manntalsdegi flokkast undir viðkvæmar persónuupplýsingar.

Hagstofa Íslands stefnir einnig að því að taka saman upplýsingar um fólk með fötlun og trúfélagsaðild. Þetta er að frumkvæði Hagstofunnar, bæði vegna mikilvægis gagnanna og vegna þess að skýrslur um trúfélagsaðild hafa verið gefnar út árlega um áratuga skeið. Hvort tveggja teljast hins vegar vera viðkvæmar upplýsingar.

Öll gögn um manntalið verða varðveitt á Hagstofunni og engar persónugreinanlegar upplýsingar veittar úr því. Sérstaklega skal tekið fram að öðrum stjórnvöldum og stofnunum er óheimilt að sækja slíkar upplýsingar í manntalið.

Farið verður með allar upplýsingar í samræmi við persónuverndarstefnu Hagstofunnar. Í því felst meðal annars að kennitölur verða duldar og engar upplýsingar birtar sem hægt er að rekja til einstaklinga eða lögaðila.

Samkvæmt manntalinu 31. desember 2011 var íbúatala landsins 315.556 en í árlegum mannfjöldaskýrslum Hagstofunnar var mannfjöldinn talinn vera 319.575. Þarna munar 4.019 manns. Búast má við að aftur verði munur á mannfjöldatölum 2021. Hvað veldur?

Þarna kemur tvennt til. Í manntalinu var í fyrsta lagi leitast við að fylgja alþjóðlegum skilgreiningum en ekki einfaldlega telja upp úr þjóðskránni sem eingöngu er byggð á íslenskum lögum og venjum sem hafa skapast hafa í þeim efnum. Í öðru lagi var stöðu fólks í manntalsskránni í árslok breytt í samræmi við upplýsingar úr öðrum heimildum. Í sumum tilvikum var bætt við fólki, sem hefði átti að vera skráð í þjóðskrá um áramótin, en í fleiri tilvikum var fólk tekið af manntalskránni vegna þess að það var líklegast farið af landi brott án þess að hafa látið afskrá sig úr þjóðskrá.

Námsmenn í háskólanámi erlendis eru dæmi um fyrrnefnda tilvikið. Samkvæmt manntalsreglunni á að telja þá þar sem þeir stunda nám. Samkvæmt íslenskum lögum mega þeir hins vegar hafa lögheimili á Íslandi meðan þeir eru í námi.

Það var öllu snúnara að finna þá sem hafa ekki haft fyrir því að afskrá sig en til þess var stuðst við líkindareikning.

Meðfylgjandi tafla sýnir hvernig talan 315.556 í manntalinu 2011 var fundin út með því að leggja 319.575 manns til grundvallar.

Alls Karlar Konur
Mannfjöldi með lögheimili á Íslandi 1. janúar 2012 319.575 160.364 159.211
Bætt við þýðið 1.979 1.073 906
Vegna tafa í skráningu 762 408 354
Vegna vinnu, náms eða annars, þ.m.t. hælisleitendur 1.217 665 552
Fjarlægðir úr mannfjöldanum 5.998 3.286 2.712
Vegna tafa í skráningu o.fl. 2.130 1.201 929
Vegna náms 1.951 952 999
Sterkar vísbendingar um búsetu erlendis 1.917 1.133 784
Mannfjöldi með vanalega búsetu á Íslandi 31. desember 2011 315.556 158.151 157.405

Áætlað er að fyrstu niðurstöður verði birtar í maí 2022. Gert er ráð fyrir að skýrslur verði birtar í nokkrum lotum eftir því hvenær þær verða tilbúnar. Fyrstu skýrslur munu líklega varða heimilin, húsnæðið og mannfjöldann en síðustu skýrslur atvinnu og menntun.

Hagstofan hefur skuldbundið sig til þess að skila öllum helstu tölum til Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins, fyrir lok marsmánaðar 2024. Þá verða íslenskar manntalstölur opinberaðar við hlið skýrslna frá öðrum löndum evrópska samstarfsins um hagskýrslugerð (ESS).

Hagstofan er í samstarfi við aðrar hagstofur í Evrópu um gerð manntals og húsnæðistals á tíu ára fresti. Evrópusambandið stefnir að því að manntöl og húsnæðistöl verði tekin á hverju ári upp úr miðjum þessum áratug. Það er vegna þess að rafrænar upplýsingar úr opinberum skrám eru aðgengilegar árlega, eða verða aðgengilegar, í flestum Evrópulöndum rétt eins og hér á landi.

Öll vinna við manntalið 2021 miðar að því að búa í haginn fyrir næsta manntal, hvort sem það verður tekið strax að ári eða síðar. Ekki er þó gert ráð fyrir að manntal verði tekið árið 2022 en stefnt er að því að öll gögn verði til reiðu þannig að hægt verði að setja saman tímaraðir síðar.

Hagstofan veitir engum þriðja aðila heimild til að skoða þær upplýsingar sem haldið er til haga um tiltekna einstaklinga. Frá þessu er aðeins gerð undantekning fyrir viðurkennda rannsóknaraðila og þá aðeins vegna tiltekinna rannsókna að fengnu leyfi frá þar til bærum yfirvöldum. Gögn Hagstofunnar má ekki nota til þess að breyta réttarstöðu fólks eða hafa áhrif á hag þess að neinu leyti. Þau eru einvörðungu ætluð til hagskýrslugerðar og rannsókna á þjóðfélagslegum og hagrænum málefnum.

Það hefur hins vegar tíðkast að manntöl séu birt almenningi 80 árum eftir að þau eru tekin. Þannig er til dæmis hægt að sjá upplýsingar um nafngreint fólk í manntalinu 1920 á manntalsvef Þjóðskjalasafnsins og verið er að skrá nýrri manntöl.

Þó svo að Hagstofunni beri ekki skylda lengur til þess að afhenda Þjóðskjalasafninu hagskýrslugögn, þá má líta svo á að um varðveislu manntalsgagna til lengri tíma gildi lög um opinber skjalasöfn en þar er kveðið á um að opna megi almenningi aðgang að trúnaðargögnum eftir 80 ár, jafnvel þó svo að upphaflega hafi slík gögn verið talin viðkvæm eða um þau ríkt trúnaður.

Það er því ólíklegt að menn geti nokkru sinni flett upp færslum um sjálfa sig nema til þess að vita að þeir hafi verið skráðir sem börn á manntalsdeginum.

Manntalið 2021 nær til eftirtalinna efnisþátta. Það sem er til viðbótar skylduþáttum samkvæmt EES-samningnum er merkt með *. Í nær öllum tilvikum mun manntalið 2021 bjóða upp á ítarlegri sundurliðun en EES-reglugerðir mæla fyrir um:

Uppruni og búseta

 • Búseta
 • Byggðarstig
 • Kyn
 • Aldur
 • Fæðingarland
 • Ríkisfangsland
 • Erlendur bakgrunnur*
 • Trúfélag*
 • Tegund fötlunar*¹
 • Ár síðustu komu til landsins
 • Búseta ári fyrir manntalsdag

Menntun og atvinna

 • Staða á vinnumarkaði
 • Starfsstétt
 • Atvinnugrein
 • Atvinnustétt
 • Lega vinnustaðar
 • Lengd atvinnuleysis*
 • Tekjur*
 • Menntunarstig
 • Svið hæstu menntunar*
 • Útskriftarár

Fjölskyldan og heimilið

 • Hjúskaparstétt
 • Staða á heimili
 • Staða í fjölskyldu
 • Gerð kjarnafjölskyldu
 • Stærð kjarnafjölskyldu
 • Fjöldi vinnandi í fjölskyldu*
 • Gerð einkaheimilis
 • Stærð einkaheimilis
 • Fjöldi vinnandi á heimili*
 • Húsnæðiskostur
 • Húsnæðisumráð
 • Íbúðir fyrir aldraða*
 • Aðgengi heimilis að einkabíl*
 • Ráðstöfunartekjur heimilis*
 • Eignir og skuldir heimilis*

Húsnæðið

 • Gerð húsnæðis
 • Nýting húsnæðis
 • Eignarhaldsform
 • Fjöldi íbúa
 • Nothæft gólfpláss
 • Þéttseta (Fjöldi íbúa á fermetra)
 • Eigendur húsnæðis (flokkun eftir rekstrarformi)*
 • Byggingargerð
 • Byggingartími
 • Hæð í húsinu*
 • Lyfta í húsinu*
 • Húsnæði fyrir aldraða* Stofnanir og fyrirtæki
 • Tegund stofnunar
 • Staðsetning stofnunar
 • Tegund fyrirtækis
 • Aðalatvinnugrein
 • Starfsstöð¹
 • Staðsetning fyrirtækis/starfsstöðvar
 • Fjöldi starfsmanna

¹ Ekki víst að takist að setja saman þau gögn miðað við 1. janúar 2021.

Áætlanir Hagstofunnar gera ráð fyrir að manntalið 2021 muni kosta um 150 milljónir króna. Það hefur verið á fjármálaáætlun frá árinu 2018 og er að fullu fjármagnað af fjárlögum.

Til samanburðar má geta þess að hefðbundið manntal í Bandaríkjunum, en þar eru íbúar um 1.000 sinnum fleiri en hér á landi, kostaði árið 2010 ríflega 12 milljarða bandaríkjadala samkvæmt fréttum, en 15,6 milljarða árið 2020. Miðað við höfðatölu yrði kostnaður við slíkt manntal á Íslandi um 2,2 milljarður króna miðað við gengi bandaríkjadals 9. desember 2020.

Eftirfarandi heimildir eru (aðallega) að baki manntalinu 2021:

Mannfjöldinn, einstaklingar og fjölskyldur:

 • Íbúaskrá Þjóðskrár og breytingaskrá hennar.
 • Utangarðsskrá Þjóðskrár.
 • Skráning einstaklinga í einstakar íbúðir í þjóðskrá.
 • Þinglýsingahluti fasteignaskrár (eigendur, leigjendur, búseturéttarhafar, umráðamenn).
 • Greiðslumiðar vegna skattframtals frá leigusölum og leigjendum.
 • Gögn frá Útlendingastofnun um hælisleitendur.
 • Gagnaöflun hjá Fangelsismálstofnun um fanga.
 • Gagnasafn Hagstofunnar um fjölskylduvensl (sifjaskrá).
 • Sérstök gagnasöfnun Hagstofunnar hjá sveitarfélögum um fólk með ótilgreint heimilisfang.

Heimilin og húsnæðið

 • Fasteignaskrá Þjóðskrár.
 • Sérstök gagnasöfnun Hagstofunnar hjá sveitarfélögum um aðra nýtingu íbúðarhúsnæðis þar sem enginn hefur lögheimili.
 • Sérstök eftirgrennslan Hagstofunnar um stofnanir og búsetu í stofnunum.
 • Sérstök gagnasöfnun Hagstofunnar hjá félagsþjónustu sveitarfélaganna um heimilislausa og fólk sem sótt hefur um félagslegt húsnæði vegna húsnæðisleysis.

Menntun

 • Menntunarskrá Hagstofunnar
  • Uppfærð árlega.

Atvinna

 • Launarannsókn Hagstofunnar.
 • Staðgreiðsluskrá
 • Skattgrunnskrá Hagstofunnar frá 1981.

Annað

 • Úrtaksrannsóknir Hagstofunnar (Vinnumarkaðsrannsóknin, Lífskjararannsóknin) eru notaðar til að meta gæði gagnanna, og til að fá ábyggilegar upplýsingar vegna tilreiknunar einstakra gilda.

Viðmiðunardagur manntalsins er 1. janúar 2021. Meginástæður fyrir þeirri dagsetningu eru þrjár:

 • Í fyrsta lagi gerir reglugerð Evrópusambandsins um manntöl og húsnæðistöl ráð fyrir að viðmiðunardagurinn verði að vera á árinu 2021.
 • Í öðru lagi þótti hyggilegt að miða viðmiðunardaginn við viðmiðunardagsetningu fasteignaskrár og helstu mannfjöldatalna. Þessar tölur eru gefnar út miðað við áramót.
 • Árið 2011 var viðmiðunardagurinn 31. desember það ár en ástæða þess var sú að ákvörðun um hvort yrði af manntali var ekki tekin fyrr en liðið var á það ár. Það er hins vegar heppilegra að viðmiðunardagur sé í upphafi hvers áratugar og því í upphafi ársins 2021.

Þess má geta að ekki falla öll mikilvæg gögn að viðmiðunardeginum. Þannig miðast nemendaskrá Hagstofunnar við stöðuna í október eða nóvember og ákveðið var að miða atvinnustöðuna við stöðuna í nóvember enda eru greiðslur í staðgreiðsluskrá í desember oft fyrir allt árið fremur en þann mánuð einan.

Þar sem íslenska manntalið er byggt á stjórnsýsluskrám verður ekki að fullu hægt að tryggja að manntalið gefi sömu niðurstöðu og ef einstaklingarnir sjálfir hefðu fyllt út þar að lútandi eyðublöð. Reglur og skilgreiningar innan evrópska samstarfsins um hagskýrslugerð (ESS) sem Hagstofan á aðild að gera þó ráð fyrir að taka megi manntal með hvaða hætti sem er svo fremi sem þau uppfylli ákveðin lágmarksskilyrði um töku manntala.

Helstu frávik eru þau að í skráarmanntölum eru heimili eingöngu skilgreind sem þeir sem búa saman í sömu íbúð. Í hefðbundnum manntölum er þess einnig krafist að heimilismenn hafi sameiginlegt heimilishald. Þá eru upplýsingar um atvinnustöðu og atvinnuleysi byggðar á skrám og stöðu í einum mánuði og því annars eðlis en upplýsingar sem byggja á mælingum í einni viðmiðunarviku og á huglægu mati þess sem svarar. Þess hefur þó verið gætt við vinnslu gagnanna að munurinn sé eins lítill og hægt er.

Hagstofan hyggst taka manntal héðan í frá á hverjum áratug eins og fyrir er mælt í reglugerðum EES um manntöl og húsnæðistöl.

Sumu efni þyrfti þó að gera skil oftar en einu sinni á áratug. Hagstofan hefur fullan hug á því að viðhalda menntunarskránni og stefnir að því að birta skýrslur úr henni á hverju ári. Þá stefnir Hagstofan að því að birta árlegar skýrslur um atvinnu og atvinnuskiptingu eftir landshlutum og smærri svæðum. Ennfremur má vænta þess að gerðar verði breytingar til frambúðar á birtingu gagna um fjölskyldur sem byggðar eru á reynslunni frá manntalinu. Þá verður stofnanaskrá Hagstofunnar haldið við og gerðar árlegar uppfærslur á þeim íbúum sem þar búa.

Innan Evrópska efnahagssvæðisins eru uppi áform um að sameina mannfjölda- og manntalstölfræðina þannig að manntalsefni sem hægt er að gera árlega verði tekið saman á hverju ári. Annað sem erfiðara er við að eiga í Evrópulöndunum verði gert sjaldnar, t.d. á 5 eða 10 ára fresti. Ekkert er því til fyrirstöðu hérlendis en að hefja undirbúning að árlegu manntali þegar í stað.